Framvinda botngróðurs við endurheimt birkiskóga

Höfundur: Ása L. Aradóttir

Prófessor í vistheimtarfræðum/Professor of Restoration Ecology. Landbúnaðarháskóla Íslands/Agricultural University of Iceland. Netfang/email: asa@lbhi.is

17/02/2021

Útbreiðsla birkiskóga á Íslandi er nú aðeins brot af því sem talið er að hún hafi verið við landnám (Snorri Sigurðsson 1977) og mögulegri útbreiðslu við núverandi loftslag (Wöll 2008). Í skýrslu nefndar um vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga er lagt til að sett verði opinbert markmið um að birkiskógar þeki í framtíðinni a.m.k. 10% af flatarmáli Íslands (Danfríður Skarphéðinsdóttir o.fl. 2007), sem jafngildir nærri tíföldun á núverandi útbreiðslu birkiskóga og birkikjarrs (Björn Traustason & Arnór Snorrason 2008). Þetta markmið er í takt við nýlegt samkomulag um framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem kveður meðal annars á um að aðilar samningsins endurheimti a.m.k. 15% skemmdra vistkerfa fyrir 2020 (CBD 2010). Ágætis þekking er á leiðum til að koma birki og víði á legg (Aradóttir & Eysteinsson 2005, Kristín Svavarsdóttir 2006) en minna er vitað um það hversu hratt og í hve miklu mæli lykilhópar birkivistkerfisins berast inn í endurheimta skóga, sem margir geta verið einangraðir frá náttúrulegum skógum.


Rannsóknaverkefnið Kolbjörk er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá og Hekluskóga Meginmarkmið þess er að kanna þróun lífríkis, jarðvegs og kolefnisbindingar við endurheimt birkiskóga á röskuðum svæðum (Guðmundur Halldórsson o.fl. 2009). Í verkefninu hefur meðal annars verið leitað svara við þeirri spurningu hvort nóg sé að koma birki á legg og endurheimta trjáþekju birkiskóga til þess að aðrar skógartegundir nemi land og myndi gróðursamfélög er séu sambærileg við gróðursamfélög náttúrulegra birkiskóga. Í þeim tilgangi var borinn saman botngróður misgamalla endurheimtra birkiskóga á uppgræddu landi, náttúrulegra birkiskóga, uppgrædds lands án birkis og óuppgræddra viðmiðunarsvæða.

Sjá nánar hér

Þér gæti einnig líkað…