Viltu hjálpa okkur að skrá útbreiðslu birkis og stuðla þannig að endurheimt birkiskóga?

Sjálfgræðsla birkis er mikilvæg leið til að endurheimta birkiskóga. Hún er háð framboði á fræi, hvort sem það kemur frá gömlum skógum, trjálundum eða stökum trjám. Í verkefninu BirkiVist ætlum við að gera spár um sjálfgræðslu birkis og því meira sem við vitum um mögulegar fræuppsprettur því betri verða spárnar.

 

Leitum við nú til almennings um að hjálpa okkur að skrá útbreiðslu birkis víðar.

Opna skráningu
Skógræktin heldur utan um gagnagrunn um útbreiðslu náttúrulegra birkiskóga en vegna þess að hann nær ekki yfir minnstu birkilundina leitum við nú til almennings um að hjálpa okkur að skrá útbreiðslu birkis víðar.

Skoða útbreiðslu náttúrulegra birkiskóga (Skógræktin)

Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld-áskoranir, leiðir og ávinningur 

Birki (Betula pubescens) er ríkjandi tegund í náttúrulegum skógum á Íslandi og birkivistkerfi veita margvíslega og mjög verðmæta vistkerfisþjónustu. Stórfelld eyðing birkiskóga á sl. 1100 árum skildi eftir litlar og einangraðar leifar en vísi að náttúrulegu landnámi birkis má nú sjá í öllum landshlutum. Víðtæk endurheimt birkivistkerfa er verkefni með fjölþætta umhverfislega, samfélagslega, efnahagslega og menningarlega skírskotun. Í verkefninu verða greindar helstu hindranir fyrir náttúrulegu landnámi birkis og hvernig stjórnkerfi, stofnanaumhverfi og samfélag hvetur eða letur endurheimt. Áhersla er lögð á þverfræðilega nálgun og ávinning af samþættingu ólíkra fræðasviða.

Verkefnið felur í sér umfangsmikla greiningu á stjórnkerfinu að baki vernd og endurheimt og á samstarfi haghafa og viðhorfum almennings; allt þetta munum við síðan tengja við vistfræðilegar forsendur fyrir árangursríkri endurheimt. Ein afurð verkefnisins verður þannig vistfræðilegar og stjórnsýslulegar lausnir og verkfæri til að auka skilvirkni endurheimtar.
Nýnæmi verkefnisins felst m.a. í breiðri samvinnu milli margra aðila (þriggja háskóla og þriggja fagstofnana á sviði umhverfismála með samstarfi við fleiri stofnanir, skóla og sprotafyrirtæki) og sem leggja til ólíka sérþekkingu og gagnagrunna. Afraksturinn mun hjálpa Íslandi að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og styrkja stefnumótun á sviði umhverfismála. Með BIRKIVIST er ætlunin að stuðla að skilvirkni, samfélagslegri sátt og aukinni þátttöku almennings í endurheimtarverkefnum.

Hafa samband

Ása L. Aradóttir: asa@lbhi.is

Kristín Svavarsdóttir: kristins@land.is

  • Ilmbjörk (Betula pubescens) eða birki er algengasta skógartréð á Íslandi

  • Birkiskógar eru einu náttúrulegu skógar landsins